Feðgarnir Magnús Hjörleifsson og Ari Magg eiga og reka saman ljósmyndastúdíóið Magg. Fyrirtækið hefur verið starfrækt í um þrjátíu ár, lengst af undir nafninu Studio Magnús, fyrst með aðsetur í Hafnarfirði, þá Listhúsinu Laugardal og Snorrabraut og síðustu árin í hjarta Reykjavíkur, við Hverfisgötuna og nú í Skipholtinu. Árið 2006 var nafni fyrirtækisins breytt í MAGG.
Í stúdíóinu starfa að jafnaði nokkrir einstaklingar, einn til tveir ljósmyndarar, aðstoðarljósmyndari, stílisti og framkvæmdastjóri. Með þessa samsetningu getur Magg tekið að sér framleiðslu á stórum auglýsingaherferðum sem smáum og hefur öðlast víðtæka reynslu á því sviði síðasta áratug. Magg hefur verið virkur þátttakandi í mótun og ímyndarsköpun fyrir fjölmarga viðskiptavini og þróað í samvinnu við auglýsingastofur heildarútlit og stemmningu sem hefur svo í framhaldi verið náð með framúrskarandi ljósmyndum.
Ljósmyndir og ljósmyndaherferðir Magg hafa unnið til fjölmargra viðurkenninga bæði innanlands og utan. Má þar helst nefna ljósmyndaherferð 66°Norður sem vann til hinna virtu Evrópsku EPICA verðlauna árið 2004 og 2005.
Kúnnahópur Magg er fjölbreyttur og þarfir viðskiptavina eru ólíkar. Jafnframt því að sjá um framleiðslu á stórum auglýsingaherferðum tökum við að okkur hefðbundnari ljósmyndun af ýmsum stærðum og gerðum, t.d. starfsmannamyndatökur og ýmis konar corporate myndatökur. Meðal viðskiptavina Magg má nefna allar helstu auglýsingastofur landsins; EnnEmm, Jónsson & Le'macks, Pipar, Íslensku auglýsingastofuna og Hvíta Húsið, auk verkefna fyrir erlendar auglýsingastofur á borð við Ogilvy & Mather og Young & Rubicam í New York og Naked í London. Auk þess fjölmarga viðskiptavini á borð við Símann, Landsbankann, 365 miðla, 66°Norður, Actavis, Icelandair og fleiri. Meðal erlendra viðskiptavina má finna t.a.m Motorola, Campbell's, William Grant & Sons, Monocle, Time Magazine, Wallpaper, I-D Magazine, The Sunday Times, Observer Magazine og Monopol.
Allar frekari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri Magg, Auður Karitas Ásgeirsdóttir.
Almennir viðskiptaskilmálar - MAGG ehf.
Þessir almennu skilmálar gilda um þá þjónustu sem veitt er af hálfu MAGG ehf., kt. 551299-3179, Ásvallagötu 24, 101 Reykjavík og fyrirsvarsmanns félagsins, Ara Magnússonar (hér eftir sameiginlega nefndir „MAGG“).
Höfundaréttur
MAGG á allan höfundarétt á þeim hugverkum sem stafa frá MAGG og framselur aðeins notkunarrétt á hugverkum að því marki sem samið er um í hverju og einu verkefni. Öll önnur notkun hugverka MAGG er óheimil nema með skriflegu samþykki MAGG og eftir atvikum gegn sérstökum greiðslum. Hvers kyns breytingar á hugverki MAGG eru óheimilar án skriflegs samþykkis.
Endurgjald, reikningagerð og skilmálar
MAGG semur um endurgjald og greiðsluskilmála í hverju og einu verkefni. Almennt er einn reikningur gefinn út vegna hvers verkefnis sem nær til allra þátta verkefnisins. Á reikningi koma fram þeir sérstöku samningsskilmálar sem gilda um hvert og eitt verkefni.
Tímabil og svæði
MAGG semur um tímabil og umfang notkunarréttar viðskiptavinar af hugverkum í hverju og einu verkefni. Skilmálar um notkunarétt koma almennt fram á reikningum sem stafa frá MAGG. Sé ekki samið sérstaklega um tímabil og svæði notkunarréttar skal rétturinn einskorðast við birtingarrétt á Íslandi til 12 mánaða.
Afnot að afnotatímabili loknu
Óski viðskiptavinur eftir að hagnýta sér hugverk að liðnu umsömdu afnotatímabili rukkar MAGG gjald sem nemur að lágmarki 30% af umsömdu og reikningsfærðu endurgjaldi fyrir hugverkið fyrir 12 mánaða viðbótarafnot. Í hverju og einu tilfelli er samið sérstaklega um afnot að afnotatímabili liðnu. MAGG áskilur sér allan rétt til að hafna beiðni viðskiptavinar um hagnýtingu hugverks að afnotatímabili liðnu. Hagnýti viðskiptavinur sér hugverk MAGG að liðnu umsömdu afnotatímabili án samþykkis MAGG áskilur MAGG sér rétt til að krefjast bæði greiðslu fyrir viðbótarafnotin skv. framangreindu auk álags auk skaðabóta vegna hvers kyns tjóns. Þá áskilur MAGG sér rétt til að krefjast þess að látið verði af viðbótarafnotunum, að viðlögðu lögbanni.
Aðilaskipti og framsal
Viðskiptavini er óheimilt að framselja réttindi sín og skyldur gagnvart MAGG til þriðja aðila án skriflegs samþykkis MAGG. Ef viðskiptavinur hættir starfsemi eða verður gjaldþrota gengur notkunarréttur viðskiptavinar að hugverki til baka til MAGG án endurgjalds.
Ofangreindir skilmálar gilda til viðbótar og fyllingar þeim sérstöku skilmálum sem kann að vera samið um í hverju og einu verkefni. Stangist sérstakir skilmálar á við þessa almennu viðskiptaskilmála skulu ákvæði hinna sérstöku skilmála ganga framar þessum almennu viðskiptaskilmálum. Að því leyti sem sérstökum og almennum viðskiptaskilmálum sleppir gilda ákvæði höfundalaga nr. 73/1972 með áorðnum breytingum.